Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 801  —  284. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegar vegna þátttöku Íslands í samstarfi á grundvelli þess samnings sem er liður í Schengen-samstarfinu. Í umræðum í nefndinni kom fram að mjög erfitt er að átta sig á því hvaða afleiðingar það hefur að samþykkja ákvæði eins og það sem hér er lagt til að verði bætt við lögin og hljóðar svo: „Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.
    Í nefndinni var þess sérstaklega farið á leit að dómsmálaráðuneytið upplýsti með skriflegri greinargerð til nefndarinnar annars vegar hvað telst fyrsta hælisland og hins vegar hvaða vinnubrögð hafa tíðkast hingað til og hvernig ráðuneytið hugsar sér framhaldið að samþykktu þessu frumvarpi. Upplýsingum um þetta var hafnað í nefndinni. Það er því ljóst að minni hlutinn getur ekki tekið á sig þá ábyrgð að standa að samþykkt frumvarps sem honum hefur verið hafnað um að fá frekari útskýringar á. Til frekari skýringar á því hvað hér er átt við er rétt að vitna til þess sem fram kemur í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands, en þar segir m.a.: „Dyflinnarsamningnum er, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, „ætlað að tryggja að umsókn hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna“ og koma í veg fyrir að hælisleitendur hringsóli á milli landa án þess að umsókn þeirra hljóti efnislega meðferð.
    Við framkvæmd samkomulagsins hefur raunin orðið sú að með beitingu reglunnar sem sett er fram í 3. gr. 5. mgr. eru hælisleitendur sendir til þriðja ríkis sem hefur verið skilgreint sem „öruggt þriðja ríki“. Vandkvæðin við beitingu þessa ákvæðis eru þau að skilgreining á því hvað telst „öruggt þriðja ríki“ fer ekki eftir neinum tilgreindum reglum og er það því tilviljanakennt og oft ekki samræmi á milli þess hvað aðildarríkin hafa skilgreint sem „öruggt þriðja ríki“. Þetta hefur oft leitt til endursendingar til landa þar sem hælisleitendur fá ekki efnislega umfjöllun um umsókn sína og í sumum tilfellum hefur þetta haft í för með sér að hælisleitendur hafa verið endursendir til lands þar sem þeir hafa sætt ofsóknum og er því brot á banninu við endursendingu (non-refoulement) sem sett er fram í 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.“
    Þarna kemur vel fram hversu miklu máli það skiptir hvernig Íslendingar skilgreina sjálfir fyrsta hælisland, hvort um er að ræða farþega sem millilenda eingöngu, transit-farþega, eða hvort um sé að ræða land þar sem viðkomandi hælisleitandi á fyrstu raunhæfu möguleikana á því að leita hælis. Upplýsingar um þetta reyndist ekki unnt að knýja fram á viðunandi hátt að mati minni hlutans og því erfitt fyrir hann að átta sig á því hvaða afleiðingar lögfesting reglna eins og þessarar hefur í för með sér. Með þetta að leiðarljósi vill minni hlutinn ekki bera ábyrgð á lögfestingu þessara reglna.

Alþingi, 28. febr. 2001.


Lúðvík Bergvinsson,

frsm.

Guðrún Ögmundsdóttir.